#16 Steinunn Kr. Zophoníasdóttir, ljósmóðir með sérhæfingu í breytingaskeiði kvenna: "Það er lýðheilsumál að við konur vitum hvað er að gerast í líkama okkar"

Viðmælandi þáttarins að þessu sinni er Steinunn Kr. Zophoníasdóttir, ljósmóðir með sérhæfingu í breytingaskeiði kvenna. Hún hefur lengi haft, að eigin sögn  "óútskýrðan", áhuga á breytingaskeiðinu, en þegar að hún byrjaði að skoða það fyrir rúmlega áratugi síðan þá kom hún að nokkuð tómum kofanum. Hún ákvað því að fjalla um upplifun íslenskra kvenna af breytingaskeiðinu í meistaraverkefni sínu, þar sem hún tók viðtöl við konur sem höfðu upplifað mjög erfið einkenni breytingaskeiðs. Ritgerðina má finna hér og mæli ég eindregið með að skoða hana.  Það má orða það þannig að Steinunn er á kafi í allt er viðkemur breytingaskeið kvenna og hún á svo sannarlega stóran þátt í að umræðan er orðin eins mikil og raun ber vitni. Auk þess að veita ráðgjöf og fræðslu um breytingaskeið kvenna á Fæðingarheimili Reykjavíkur, þá sér hún um fræðslu um breytingaskeið kvenna á vegum Kvenheilsu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við Sólrúnu Ólínu, hjúkrunarfræðingi. Þá situr hún í stjórn FEIMA (fræðslufélag um breytingaskeiðið) sem hún tók þátt í að stofna sumarið 2021. Í hjáverkum heldur hún svo úti instagramsíðunni Breytingaskeið þar sem lesa má fróðleik um breytingaskeið kvenna og von er á heimasíðu hennar með sama nafni, en hún er í vinnslu og mun líta dagsins ljós á þessu ári. Steinunn hefur einstaklega góða nærveru og nálgast viðfangsefnið af mikilli virðingu og natni, enda umhugað um að mæta hverri konu þar sem hún er stödd með að leiðarljósi að veita heildræna ráðgjöf varðandi breytingaskeiðið. Það heyrist vel í þessu viðtali og húmorin er ekki langt undan.  Góða hlustun! 

Om Podcasten

Tölum um breytingaskeið kvenna án þess að roðna og vörpum á það jákvæðu ljósi. Þær konur sem fæðast með æxlunarfæri kvenna fara á breytingaskeiðið í kringum fertugt. Þá hefst nýr kafli sem markar í raun síðasta þriðjung æviskeið kvenna og við ræðum bara alls ekki nóg um. Þessi þáttasería er innlegg í að auka umræðuna um breytingaskeið kvenna og draga fram fegurðina í því sem framundan er. Rætt er við allskonar konur um breytingaskeiðið, bæði faglega og reynslulega. Umsjónakona er Sóley Kristjánsdóttir og tónlist gerði Kristján Steinn Kristjánsson