Vafasöm hegðun vararíkissaksóknara
Þetta helst - En podcast af RÚV
Kategorier:
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari er enn og aftur búinn að koma sér í klandur vegna hegðunar sinnar á samfélagsmiðlum. Nú síðast fullyrti hann að hælisleitendur ljúgi til um kynhneigð sína til að fá að vera á Íslandi. Hver lýgur sér ekki til bjargar? spurði vararíkissaksóknararinn. Hann spurði reyndar líka hvort það væri skortur á hommum á Íslandi. Uppi varð fótur og fit, eðlilega, og dómsmálaráðherra sagði meira að segja að ummælin hafi slegið sig illa. Samtökin 78 kærðu Helga Magnús til lögreglu fyrir ummælin, formaður Viðreisnar vill að dómsmálaráðherra beiti hann agaviðurlögum, samfélagsmiðlarnir fóru á hliðina og ríkissaksóknari er að skoða málið. Enn og aftur. Því þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem embættismaðurinn segir eða gerir eitthvað sem slær fólk illa. Fregnirnar af vafasamri hegðun hans ná aftur til ársins 2011, þegar hann heyrðist fara afskaplega ljótum orðum um saksóknara efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, hann hefur gert lítið úr réttindum kvenna til þungunarrofs, lækað vafasamar færslur á samfélagsmiðlum - svo einhver dæmi séu tekin. Sunna Valgerðardóttir skoðaði skoðanir og ummæli vararíkissaksóknara Íslands í Þetta helst.