Áhrifavaldar og sögulegur fundur Bidens og Pútín

Hádegið - En podcast af RÚV

Kategorier:

Í fyrri hluta þáttarins hlýðum við á örskýringu vikunnar, um áhrifavalda. Orðið áhrifavaldur hefur verið meira og meira á milli tannanna á fólki á síðustu árum hér á landi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hér býr jú fjöldinn allur af áhrifavöldum, samfélagsmiðlastjörnum sem græða á tá og fingri á því að segja frá sér og sínu lífi. En það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera áhrifavaldur enda fylgja því ýmsar kvaðir, meðal annars þær að greina skýrt og skilmerkilega frá því hvenær auglýsendur greiða fyrir þjónustu þeirra. Í örskýringum sínum leitast Atli Fannar Bjarkason við að útskýra flókin fyrirbæri á einfaldan hátt. Hvað er áhrifavaldur? Í síðari hluta þáttarins fjöllum við um samskipti Rússa og Bandaríkjanna síðustu ár, leiðtogafund þeirra Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, sem haldinn var í Genf í Sviss á miðvikudaginn. Frá því Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbtasjev leiðtogi Sovétríkjanna hittust á sögulegum fundi í Genf árið 1985 - og svo ári síðar í Höfða í Reykjavík - hafa leiðtogafundir Bandaríkjanna og Rússlands verið hátt í tuttugu. Fundur þeirra Bidens og Pútíns var haldinn á víðsjárverðum tímum. Samskipti Bandaríkjanna og Rússlands hafa ekki verið verri í áratugi, jafnvel verri nú en á löngum tímabilum á meðan kalda stríðið varði. Síðustu ár hefur nefnilega gengið á ýmsu. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.