Vopnabirgðir Rússa og heimavallarétturinn
Hádegið - En podcast af RÚV
Kategorier:
Rússar hafa nær tvöfaldað tekjur sínar af sölu jarðefnaeldsneytis til Evrópusambandsríkja frá innrás Rússa í Úkraínu fyrir um tveimur mánuðum. Meginástæða þess er einmitt innrásin, eða bein afleiðing hennar: Feiknaleg hækkun á eldsneytisverði. Tekjur af eldsneytissölunni rata á endanum að mestu leyti í rússneska ríkissjóðinn og gera þannig Rússum kleift að fjármagna stríðið á sama tíma og þær vega upp á móti þeim þeim þungu efnahagsþvingunum og refsiaðgerðum sem fjölmörg ríki og Evrópusambandið beita nú Rússa vegna stríðsins. Rússar treysta verulega á innflutning á ýmiskonar neyslu- og tækni- og rafvörum og vélbúnaði - einna helst frá Evrópuríkjum. Það þarft því vart að taka það fram að efnahagsþvinganirnar hafa haft víðtæk áhrif á líf almennings í Rússlandi og valdið ringulreið á rússneskum fjármálamarkaði. En hvað með eina helstu nauðsynja stríðs: Vopnin. Hvernig standa málin þar í ljósi refsiaðgerðanna? Framleiða Rússar allt sem til þarf í þeim efnum eða þurfa þeir að treysta á viðskipti við önnur ríki? Og hvernig gengur það þá nú á dögum? Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður fer yfir stöðuna á vopnabirgðum og -kaupum Rússa í fyrri hluta þáttarins. Úrslitakeppni karla og kvenna í handbolta og körfubolta er nú í fullum gangi. Allt keppnistímabilið keppast liðin við að enda sem hæst í töflunni svo þau njóti heimavallaréttarins fræga í úrslitakeppninni. En skiptir heimavallarétturinn einhverju máli? Ekki samkvæmt nýlegum úrslitum hér heima, til að mynda af Njarðvíkurkonur unnið báða leiki sína gegn Haukum í úrslitaeinvígi efstu deildar kvenna í körfubolta, og Haukar unnið báða sína leiki í Njarðvík. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður fjallar um heimavöllinn í síðari hluta þáttarins, og hvort það sé hrein og bein mýta, að hann skipti einhverju máli. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.