143| Gagnaleki og Biden á Írlandi og sambúð Moldóvu og Rússlands

Fjögurra daga heimsókn Joe Bidens bandaríkjaforseta til Írlands og Norður-Írlands lauk í gær en afar óvenjulegt er að bandaríkjaforsetar staldri svo lengi við í opinberum erindagjörðum. Biden hefur svo gott sem staðfest að hann ætli að berjast fyrir endurkjöri eftir rúmt ár og tímasetning heimsóknarinnar heppileg til að afla vinsælda í kosningabaráttunni, en friðarsamkomulagið á Írlandi, sem bandaríkjastjórn hafði milligöngu um árið 1998, er eitt af því fáa sem andstæðir pólar í bandarískum stjórnmálum líta sömu augum, og það þykir afar vel heppnað. Írskar rætur liggja víða í bandaríkjunum og því hafa þarlendir forsetar ítrekað heimsótt eyjuna grænu þegar líða fer að kosningum, en það sem hefði átt að vera vika Bidens, þar sem hann gæti hossað sér á hlut sínum og Bandaríkjanna í friðarsamkomulaginu og reynt að miðla málum að nýju, reyndist heldur vandræðaleg vegna gagnaleka sem staðfesti njósnir bandaríkjastjórnar um samherja sína og vantrú á sókn úkraínuhers gegn Rússum. Bjarni Pétur fjallar um málið. Sem stendur er Moldóva á berangri. Rússar vilja halda landinu á sínu áhrifasvæði en stjórnvöld í Moldóvu stefna óhikað að því að verða eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þá er Moldóva það ríki utan Úkraínu, sem hefur fundið hvað mest fyrir afleiðingum innrásar Rússa. Eins óttast stjórnvöld í Moldóvu að vera næst á lista Pútíns Rússlandsforseta og segja Rússa með ýmsum ráðum reyna að seilast til áhrifa. Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um málið. Umsjónarmenn Heimskviða eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.

Om Podcasten

Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.