93 | Rússar og Úkraína og garðpartý Borisar Johnson

Með falli Sovétríkjanna og lokum kalda stríðsins var almennt litið svo á að Rússar væru ekki lengur ógn við frið í Evrópu. Dregið var úr útgjöldum til varnarmála, sverðunum breytt í plóga. En í Rússlandi fannst mörgum að þeir hefðu verið niðurlægðir, Eystrasaltsríkin lýstu yfir sjálfstæði, Varsjárbandalagið hrundi með Sovétríkjunum og fyrrverandi bandalagsþjóðir Rússa gengu andstæðingunum á hönd og og seinna bæði í NATO og Evrópusambandið. Bogi Ágústsson fjallar um spennuna sem er á milli Rússa og vestrænna ríkja og Úkraínu og ræðir meðal annars við Jón Ólafsson. Í maí 2020 komu starfsmenn forsætisráðuneytis Bretlands saman í garðpartýi í Downingstræti 10. Á fimmta tug starfsmanna sótti veislunna, þeirra á meðal forsætisráðherrann Boris Johnson. Veislan er í frásögur færandi vegna þess að á þessum tíma giltu afar strangar samkomutakmarkanir í Bretlandi vegna kórónuveirufaraldursins. Aðeins klukkustund fyrir samkomuna þann 20. maí hélt menningarmálaráðherrann Oliver Dowden til að mynda blaðamannafund þar sem hann áréttaði við bresku þjóðina að fólk mætti aðeins hitta einn utan heimilis síns utandyra, og gæta tveggja metra fjarlægðar. Fjölmiðlar fengu veður af hátíðahöldunum núna í upphafi árs og síðan þá hefur hart verið sótt að Boris Johnson, bæði af stjórnarandstæðingum en eins innan Íhaldsflokksins. Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari RÚV í Lundúnum, segir okkur frá stöðu Johnsons eftir að upp komst um garðpartýið góða. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Birta Björnsdóttir og Guðmundur Björn Þorbjörnsson.

Om Podcasten

Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.