Borgarstjóri og lífsgæðakjarnar og rannsóknir á samsæriskenningum

Til stendur að byggja á þriðja þúsund íbúðir auk hundruða hjúkrunarrýma á uppbyggingareitum sem hafa verið skilgreindir sem sérstakir „lífsgæðakjarnar” fyrir eldri borgara í Reykjavík. Borgarstjóri skrifaði sl.föstudag undir viljayfirlýsingar um uppbyggingu á fjórum stöðum í borginni þar sem þróuð verður ný nálgun á húsnæði og þjónustu fyrir fólk á besta aldri. Á teikniborðinu eru allt að 2600 nýjar íbúðir auk hjúkrunarrýma og kallað var eftir samstarfsaðilum um þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum í maí í fyrra. Nú eru fjögur teymi farin af stað og hafa átt samtöl við félög eldra fólks en einnig sótt sér alþjóðlega ráðgjöf við þróun og útfærslu lífsgæðakjarnana. Einar Þorsteinsson borgarstjóri kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá þessu og svo notuðum við tækifærið og ræddum við hann um mengunarmál í borginni, almenningssamgöngur og hvernig honum hefur liðið í þessu nýja starfi, en hann tók við embætti borgarstjóra í upphafi árs. Svo heyrðum við í Eiríki Bergmann, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst, en hann tekur þátt í að stofna norrænt samstarfsnet um rannsóknir á samsæriskenningum, CONNOR (Nordic Network of Conspiracy Theories Research), sem byggir meðal annars á rannsóknum Eiríks. Auk hans er Hulda Þórisdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, í stjórn Íslandsdeildar CONNOR. Á opnunarráðstefnunni komu saman um 50 fræðimenn frá Norðurlöndum og víðar og þar kynnti Eiríkur helstu rannsóknir sínar á vopnvæðingu samsæriskenninga. Eiríkur var á línunni í dag og sagði okkur frekar frá þessu samstarfsneti, hvernig það kom til og hver markmið þess eru. Tónlist í þættinum í dag: Lífið er undur / Egill Ólafsson (Egill Ólafsson) Herbergið mitt / Brimkló (Arnar Sigurbjörnsson, texti Vilhjálmur frá Skáholti) UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Om Podcasten

Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.