Hryðjuverkamál, Davíð minnist Berlusconi, veggjalús tekur sér bólfestu

Spegillinn - En podcast af RÚV

Kategorier:

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik kemur ítrekað fyrir í samskiptum mannanna tveggja sem grunaðir eru um að skipuleggja hryðjuverk hér á landi. Áður óbirt samskipti mannanna koma fram í nýrri ákæru sem var tekin fyrir í héraðsdómi í morgun. Tvímenningarnir neita sök. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannsins gagnrýndi fyrri ákæru fyrir að vera óskýra og þótt þessi sé skýrari finnst honum enn vanta upp á. Alexander Kristjánsson sagði frá. Formaður borgarráðs, Einar Þorsteinsson, gerir ekki ráð fyrir að kjörnir fulltrúar borgarinnar fái hærri krónutöluhækkun á launum en samið var um á almenna markaðinum. Að óbreyttu eiga laun margra kjörinna fulltrúa sveitarstjórna að hækka, samkvæmt launavísitölu, um næstu mánaðamót. Benedikt Sigurðsson sagði frá. Á sama tíma og níu kjaradeilur eru á borði ríkissáttasemjara er undirbúin gerð stórra samninga sem losna á næsta ári. Sigríður Þuríður Runólfsdóttir ræddi við Ragnar Þór Ingólfsson og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur. Tilkynnt verður um framlag Íslands til mannúðarmála til flóttafólks í Sýrlandi og víðar á árlegri áheitaráðstefnu ESB í vikunni. Björn Malmquist sagði frá. Veggjalús hefur tekið sér bólfestu í íslenskum rúmum. Rætt er við Steinar Smára Guðbergsson meindýraeyði. Veitingastaðurinn Moss í Bláa lóninu var sæmdur Michelin-stjörnu í dag . Agnar Sverrisson, yfirkokkur á veitingastaðnum, segist enn vera að melta fréttirnar. Mun fleiri hafa skráð eignir sínar í ferðamannaleigu nú en undanfarin ár. Auka á eftirlit með heimagistingu og leyfa sveitarfélögum að takmarka hana. Ragnhildur Thorlacius ræddi við Sigríði Kristinsdóttur sýslumann á höfuðborgarsvæðinu. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, minnist Silvios Berlusonis með hlýju. Þeim var vel til vina um tuttugu ára skeið. Berlusconi hefur víða verið minnst í dag sem litríks en umdeilds stjórnmálamanns. Arnar Björnsson ræddi við Davíð Oddsson. Ásgeir Tómasson tók saman. Vísindafólk hjá Íslenskri erfðagreiningu fann á dögunum fyrstu erfðabreytuna í genamengi mannsins, sem vitað er til að hafi áhrif á tónhæð mannsraddarinnar Ævar Örn Jósepsson ræddi við Kára Stefánsson og Rósu S. Gísladóttur, dósent í málvísindum við HÍ. Leikinn var söngur bræðranna Þorsteins og Ásgeirs Trausta Einarssona. Umsjón hafði Ragnhildur Thorlacius. Tæknimaður var Magnús Þorsteinn Magnússon. Margrét Júlía Ingimarsdóttir stjórnaði fréttaútsendingu.