Íslandsbankasalan, hvalveiðibann, uppgjör Loftslagsráðs

Spegillinn - En podcast af RÚV

Kategorier:

Spegillinn 23. Júní 2023 Umsjónarmaður: Ásgeir Tómasson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon Stjórn fréttaútsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir Íslandsbanka viðurkenna lögbrot með samningi um sáttagreiðslu við fjármálaeftirlitið. Arndís Anna. K. Gunnarsdóttir, varamaður Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir að velta verði við hverjum steini vegna bankasölunnar. Arnhildur Hálfdánardóttir talaði við þau og Benedikt Sigurðsson ræddi við Birnu Einarsdóttur bankastjóra. Stjórn bankans kveðst bera fullt traust til bankastjóra. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir skýra og ótvíræða lagaheimild vera fyrir því að takmarka hvalveiðar við ákveðinn tíma. Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknar, telur mikilvægt að nefndin verði upplýst um stöðu mála. Rebekka Líf Ingadóttir tók saman. Að minnsta kosti 350 Pakistanar voru í fiskibátnum sem sökk úti fyrir Grikklandi í síðustu viku. Hugsanlegt er talið að allt að 750 manns hafi verið í bátnum. Tvær listakonur fengu 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að nota verk annars listamanns í sköpun sína. Þær voru sakfelldar fyrir hylmingu en sýknaðar af ákæru um brot gegn höfundarrétti. Brynjólfur Þór Guðmundsson tók saman. Starfshópur matvælaráðherra um strokulaxa vill stofna sérstaka rannsóknarnefnd og veita Matvælastofnun heimild til að telja laxa upp úr kvíum, vakni grunur um strok. Arnhildur Hálfdánardóttir sagði frá og talaði við Jón Kaldal, talsmann Íslenska náttúruverndarsjóðsins, og Sigurgeir Bárðarson, lögfræðing hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Dómar yfir sakborningum í saltdreifaramálinu svonefnda voru mildaðir í Landsrétti í dag. Þeir sem þyngsta refsingu hlut fá tíu ára fangelsisdóm í stað tólf. Í uppgjöri Loftslagsráðs, sem birt var á dögunum, segir að við blasi, að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum hafi ekki skilað tilætluðum árangri, markviss loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum liggi enn ekki fyrir og ljóst að Ísland muni ekki ná að uppfylla skuldbindingar sínar og fyrirheit um samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030, að óbreyttu. Ævar Örn Jósepsson ræddi málið við Halldór Þorgeirsson, formann Loftslagsráðs.